Draumurinn um Borgarnes

Votlendisbyggð í landi Granastaða.

Þegar efnahagurinn er góður er allt æðislegt. Byggingakranar nýframkvæmda verða órjúfanlegur hluti af landslagi þéttbýlanna. Borgarnes var engin undantekning á þessu og hver sem var gat látið sig dreyma um að byggja og græða á því. Síðan gerist það að allt hrynur og þessar stórkostlegu áætlanir voru ekkert meira en skýjaborgir. Þetta hefur gerst marg oft í gegnum tíðina og dramatíkin 2008 er bara eitt atvik af mörgum og eflaust ekki það síðasta. En í uppgangi verða hugmyndirnar til, misgóðar að sjálfsögðu. Við höfum séð margt verða að veruleika en annað varð kreppunni, til allra hamingju kannski, að bráð.

Þetta gerðist fyrst í Borgarnesi uppúr aldamótunum þarsíðustu. Þá var rómantíkin allsráðandi á Íslandi og menn kepptust við að yrkja gullfalleg ljóð um náttúru og þjóð á meðan fólk heimtaði sjálfstæði. Þetta var tíminn þar sem náttúran og sveitin voru framtíðin og þá voru ungmennafélögin stofnuð sem áttu að ala upp kynslóðir fullkominna einstaklinga. Þessi mikli eldmóður var til þess að Kaupfélag Borgfirðinga var stofnað. Uppgangurinn var gríðarlegur og uppúr 1913 margfaldaðist íbúatala Borgarness. En þegar svona framfarafélög ganga vel er alltaf farið að huga að því að byggja. KB hafði þegar náð Bryde versluninni á sitt vald og rak verslun í gömlu verslunarhúsunum þeirra í Englendingavík. En efnileg félög þurfa höfuðstöðvar og á aðalfundi Kaupfélagsins árið 1920 var ákveðið að byggja. Guðjón Samúelsson, húsasmíðameistari ríkisins á þeim tíma var fenginn til að hannaði stórglæsilegt stórhýsi fyrir starfsemina.

Kaupfélag Borgfirðinga, 1920

Húsið átti að hýsa alla starfsemi kaupfélagsins. Í kjallaranum átti að vera vörumóttaka fyrir vörur sem komu með kaupskipum en á hæðunum fyrir ofan skrifsstofur og verslun. Árið 1920 voru flest hús í Borgarnesi fremur smá í sniðum þannig að þetta hefði verið gríðarlega stórt hús fyrir það samfélag, ekkert ósvipað því að eitt stykki Spöngina í Borgarnesi nútímans. En örlög þessa húss voru önnur. Röð áfalla í rekstri KB og svo heimskreppan urðu til þess að þetta hús varð aldrei meira en hugmynd á teikniborðinu. En ef húsið hefði verið byggt væri það eflaust í dag til sóma í Borgarnesi sem eitt af eldri húsum bæjarins. Guðjón Samúelsson hannaði þó tvö hús sem voru byggð í bænum, hús Sparisjóðsins og síðar Mjólkursamlagið en bæði þessi hús standa í dag. Sparisjóðshúsið, sem nú er íbúðarhús á horni Egilsgötu og Skúlagötu er hannað í sama stíl og þannig það gefur ágætis hugmynd um hvernig hús KB hefði litið út, hefði það verið byggt.

En KB hélt áfram að fjárfesta í lóðum og sementi. Um síðustu aldamót fór félagið að reyna fyrir sér á fasteignamarkaðinum og fór að kaupa lóðir og huga að byggingum í nafni dótturfélags sem heitir Borgarland ehf. Þá var byggt Hyrnutorg við Borgarbraut sem varð til þess að öll verslun lagðist af í gamla bæ Borgarness. Gegnt því húsi er nú auð lóð en Borgarland hafði stórar hugmyndir varðandi þá lóð. Þar átti að vera paradís neytandans, gríðarleg verslunarmiðstöð og átti sú stöð að vera krýnd tveimur sex hæða íbúðaturnum. En hvað sem því leið risu þessar byggingar ekki í bili að minnsta kosti. Lóðin hefur verið nefnd sem ein verðmætasta á landinu og þarf ekki lengi að bíða að þar verði eitthvað byggt.

Tillaga að deiliskipulagi fyrir reitinn gengt Hyrnutorgi, árið 2005

Svæðið sem þessar stórframkvæmdir áttu að eiga sér stað hefur verið á milli tannanna á mönnum síðan að Borgarfjarðarbrúin opnaði. Þetta er nýji miðbær Borgarness og svæðið hefur farið í gegnum mörg deiliskipulög. Það virðist alltaf hafa verið ákveðið að þarna myndi rísa umferðarmiðstöð, og það gekk eftir þegar Hyrnan var byggð. En það sem færri vita er að þar sem Hyrnutorgið stendur nú var hugmynd um að byggja gríðarlega stórt menningar og safnahús. Miða við þær deiliskipulagstillögur sem komu þá fram átti húsið að vera framúrstefnulegt í útliti, en við munum aldrei vita hvernig það hefði endanlega litið út þar sem hönnunin náði ekki lengra en á skipulagsstigi. Þó má gera sér í hugarlund miða við tillögu frá Arkitektum Gunnari og Reyni árið 1996 er gert ráð fyrir tilltöllulega litlum byggingaeiningum á svæðinu þar sem Hjálmaklettur er nú. Gert var ráð fyrir að holt sem aðskilur Borgarfjörðinn og Borgarbraut myndi verða eins konar garður með gangstígum. Ef til vill hefur þessi hugmynd þótt of lítil miða við það sem koma skyldi, en árið 1996 var stutt í þá miklu þennslu á byggingamarkaðnum sem við erum að jafna okkur af í dag. Skipulagið náði aldrei lengra en í gegnum fund bæjarstjórnarinnar en þá komu nýjar hugmyndir fram. Á endanum var það Hyrnutorgið sem Borgarland byggði og Hjálmaklettur sem enduðu á frekar klaufalegu deiliskipulagi svæðisins.

Skipulagstillaga frá 1996. Klessan efst í horninu var fyrirhugað Safnahús Borgarfjarðar.

Deiliskipulög eru oft á tíðum unnin í miklum flýti vegna þrýstings frá verktökum sem liggur á að byggja. Því miður hefur kerfið alið það af sér að byggt er sem fjárfesting heldur en að koma til móts við þarfir samfélaga eða einstaklinga. Það er mjög algengt að þegar um er að ræða verðmætar lóðir er freistast til þess að byggja hátt og sem ódýrast. Lítið er lagt í hönnun bygginganna sem þýðir að gæði umhverfsins í kring verður lakara. Það hefði eflaust gerst ef síðustu hugmyndir um „Esso reitinn“ hefðu náð fram að ganga. En sá reitur er ekki sá eini sem hefur verið nefndur sem tækifæri til uppbyggingar og þá til íbúða. Svæði við enda Kveldúlfsgötu átti að verða að fjölbýlishúsalóð með mest 10 metra hárri byggingu og 18 íbúðum. Það átti að byggja röð fjölbýlsihúsa við Egilsgötu og röð parhúsa á landfyllingu við Garðavík. En dramatíkin í uppbyggingu íbúðarhúsnæði náði eflaust hámarki í Stóru-Brákarey.

Fjölbýlishús á horni Egilsgötu og Brákarbrautar

Í samkeppni árið 2007 bar tillaga Kanon arkitetka sigur úr bítum um skipulag eyjunnar. Þá var gert ráð fyrir mjög þéttri íbúðabyggð í eyjunni, með allt að 40 íbúðum í parhúsum, menningarhúsi og hóteli. Þar að auki var gert ráð fyrir háum glerturni á vestasta punkti eyjunnar, þar sem nú er bryggja á uppfyllingu. Það þýddi að það hefði þurtft að rífa öll núverandi hús sem standa á eyjunni. Í síðari deiliskipulagstillögum var hugmyndin tekin aðeins saman, en íbúðafjöldi var sá sami. Þessi tillaga er uppfull af göllum og er ljóst að ef kreppan hafi ekki komið til bjargar hefði hér oðrið gífurlegt skipulagsslys. Óblýtt veðurfarið og það grundvallaratriði að brúin yfir Brákarsund hefði veri flöskuháls fyrir alla þessa umferð á háannatímum hefði gert eyjunna að leiðindarstað til að búa á. Það munaði mjóu, það var stutt í vinnuvélarnar og þá hefði ekki mikið orðið úr þeirri sjálfsprottnu starfsemi sem nú er að myndast í Brákarey, eins og Nytjamarkaðurinn, galleríin og safn Fornbílafjelagsins.

Samkeppnistillaga Kanon arkitekta, árið 2007

Hér eru aðeins örfá dæmi um það sem hefði getað orðið í Borgarnesi. Þá er ótalin votelndisbyggð við Borgarvoginn, tilfærsla þjóðvegarins, skrifstofubyggingar við brúarsporðinn og úthverfa eða sumarbúoostaðabyggð ofan Borgar á Mýrum. En það góða við þessar hugmyndir að það má draga lærdóm af þeim. Kannski má læra svo mikið að það verði komið í veg fyrir skipulagsslys í framtíðinni.

Nánar um verkefnið – www.gjafi.is/borgarbyggdungar

Lækið á Facebook og fylgist með gangi verkefnisins: www.facebook.com/borgarbyggdungar

Um sigursteinnsig

Ég er nýútskrifaður, atvinnulaus arkitekt sem vill ekki hanga og gera ekki neitt. Þess vegna fór ég í að rannsaka og hanna hugmyndir að skipulagi fyrir Borgarnes, þar sem ég vill vekja athygli á hvað bærinn hefur mikla möguleika!
Þessi færsla var birt í Uncategorized og merkt sem , , , , , , , , , , , , , , , . Bókamerkja beinan tengil.

2 svar við Draumurinn um Borgarnes

  1. Það er til módel af en eldra menningar og safnahúsi á sama stað, módelið er til uppá lofti í safnahúsinu ásamt mörgum öðrum

  2. sigursteinnsig sagði:

    Þar höfum við það…

Færðu inn athugasemd