Gatan, bíllinn og við – II hluti

Gata hönnuð sem þjóðvegur

Í síðustu færslu var fjallað um götur og hvernig þær þróuðust í það að verða eins og þær eru í dag og er þessi grein beint framhald af henni. Gatan er nauðsynlegur þáttur í öllum samfélögum heims og eru til í öllum stærðum og gerðum. Frá tíu akreina hraðbrautum á milli stórborga til slóða á milli þorpa í frumskógum. Gatan eins og við þekkjum hana í dag, eins og kom fram í síðustu færslu hefur orðið að yfirráðasvæði einkabílsins. Stærsta svæði götunar fer undir akreinar á meðan lítill hluti fer í gangstéttar. Þá hefur þetta fyrirkomuleg orðið til þess að gríðarlegt flæmi lands fer undir bílastæði. Ísland hefur þannig tekið mið af bandaríska módelinu í sinni bæja og borgaþróun.

Sama fyrirbærið

Í þessu samhengi er rétt að staldra við og leiða hugann að því hvernig við viljum nota götuna og í raun hvernig hún virkar á annan hátt en að koma okkur á milli tveggja staða. Eins og áður kom fram var gatan samkomustaður bæjar og eða borgarbúa áður en það varð hættulegt að standa þar. Þetta er eitthvað sem hefur verið mjög skaðlegt fyrir hönnun skipulagsins, sérstaklega eftir að þetta varð einn mikilvægsti þáttur í skipulagsreglugerðum.

Úti að leika

Það hefur verið sagt svo oft að það er orðin klisja að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn. Þá var uppeldissvæðið gatan. Börn léku sér úti í Borgarnesi og foreldrar þeirra sáu til þeirra og fylgdust með þeim. Ekki aðeins með sínum krökkum heldur líka leikfélaga þeirra. Ef einn datt af hjóli og meiddi sig voru kannski þrjár mæður komnar að hjálpa til. Eins ef einhver vafasamur birtist eins og rándýr í götunni var fullorðna fólkið fljótt að stíga út að athuga málin. Þarna kemur fram ákveðin eiginleiki sem hinn dæmigerða lifandi gata hefur, það eru mörg pör af augum sem fylgjast með. Þessi sjálfskipaða nágrannavarsla verður til í samfélagi þar sem fólk kemst ekki hjá því að hittast á götum úti og heilsast. Þetta sama fólk tekur eftir því ef eitthvað er að, ef einhver er að sniglast í kringum hús nágrannans þegar hann er í fríi, eða reyk fer að leggja út um glugga. Þetta félagslega fyrirbæri er einn af þáttunum sem sköpuðu velgengni nútímamansins. Öryggið í fjöldanum, hin vökulu augu. Áhrifin margfaldast eftir því sem augun eru fleiri. Með því að setja niður einhverskonar starfsemi fyrir almenning inní þetta byggðamynstur, til að mynda verslun eða pósthús, þá aukast félagslegu gæðin til muna. Þar hefur fólk tækifæri til að hittast, spjalla og kynnast þótt að í grunnin séu mjög óformleg mannleg samskipti sé að ræða.

Því miður hefur nútímatæknin gleypt þetta fyrirbæri í hönnun skipulags, og er það einn liður í hnignun og jafnvel dauða samfélaga. Þegar hverfi eru skipulögð á Íslandi í dag eru þau í langflestum tilvikum úthverfi. Vegir sem tengja saman þyrpingu fárra húsa á stórum lóðum með engri þjónustu. Húsin sitja á miðri lóðinni og þá er farið út að planta. Runnar og tré loka á ásýnd húsana og um leið ásýnd úr húsunum út á götu. Þar getur ýmislegt vafasamt átt sér stað eins og innbrot án þess að nokkur verði þess var. Í því samhengi má spyrja sig hvort maður sé öruggari fyrir innbrotsþjófum í miðborg Kaupmannahafnar eða í götu í Bjargslandi. Sama má segja um fólk sem brýst inní bíla sér til gagns og gamans.

Hvar eru húsin?

En draumurinn um „Suburbíu“ er byggður á þrá mannsins til að eiga sér einkalíf. Að vera með sitt einkalíf í einbýlishúsi með einkagarð og á einkabíl. Og á þeim tímum þegar farið er að ferðast í einkabíl í erindagjörðum tapast sá félagslegi þáttur að rekast á nágranna á gangstéttinni og taka létt spjall um veðrið hversu versnandi heimur fer. Þau atvik, þegar fólk hittist á gangstéttinni hafa verið stórlega vanmetinn vegna þess að við þær kringumstæður er oft boðið inn í kaffi til að halda samræðunum áfram. Þetta hefur vikið fyrir einföldu veifi í besta falli þegar tveir bílar mætast og er raunin sú að ókunnugir kynnast ekki í gegnum framrúðu tveggja bíla sem mætast á fimmtíu.

Svona var það sem gatan breyttist í það sem hún er og í framhaldi af því hvernig Borgarnes er. Stærsti samfélagslegi þátturinn týndist með nýrri gatnagerð þar sem áherslurnar voru um of á umferð bíla. Þetta er ekki bara í Borgarnesi, heldur í flestum bæjum landsins, Reykjavík þar með talin. Þetta er líka sama ástæðan fyrir því sem oft hefur verið talað um að Borgarnes sé orðinn „dauður“ bær:

Var að koma af rúntinum, svaka umferð !!! Ætlaði í Geirabakarí sem auglýst er líka sem KAFFIHÚS, en NEI lok lok og læs og fólk í hópum fyrir utan og KL. ekki orðin 5 (17) Svo er líka sorglegt að horfa upp á Englendingavík og þetta fallega hús V/Hrafnaklett… „steindautt“,, Æ,veit ekki gott fólk,,,Erum við ekki ósköp slöpp hér í bæ ?????

Þetta er tilvitnun sem var skrifuð á Facebook og er lýsandi yfir það sem fólk álítur með bæinn. Oftast, eins og í þessu tilviki var talað um að verslun og þjónusta sé lokuð á háannatímum. En ekki má gleyma að það þarf alltaf að vera fólk til staðar til að nýta þjónustunna og í því byggðamynstri sem nú er er það bókstaflega þanng að fólk nennir ekki út. Það er langt að fara, það þarf að nota bílinn og sjónvarpið og sófinn verða þar af leiðandi girnilegri valkostur, sérstaklega í köldu mánuðunum.

Það heldur mörgum stöðum uppi að vera í göngufæri við fólk… Á pöbb í Edinborg

Það sem er virkilega dautt eru einmitt úthverfin og sú árátta að reyna að gera önnur svæði „úthverfalegri“ er þáttur í þessari hnignun. Í Borgarnesi er hægt að ganga um hverfin án þess að hitta nokkra lifandi sálu, eins og í draugabæjum út í heimi. Lykillinn að samfélagi þar sem fyrirtæki neyðast ekki til að loka snemma eru þau sem eru aðgengileg, að það sé hægt að ganga á milli staða og að sá göngutúr sé ánægjulegur. Þetta er ekki fjarlægur draumur, því ekki fyrir svo löngu var þetta svona.

Hér er ekki verið að predika að það eigi að banna akandi umferð en hún þarf að vinna með – ekki drottna yfir – annars konar starfsemi í þéttbýlinu. Þetta veltur allt á landnotkuninni í kringum byggingar og hvar fólkið er og hvort það sé sýnilegt. Fólk fyllist öryggistilfinningu þar sem mikið er af fólki sem hverjir einstaklingar eða hópar eru í sínum heimi. Á móti geta þau svæði sem eru tóm virkað köld og beinlínis hættuleg.

Margt er hægt að gera til að skapa þetta samfélagslega mynstur sem einkennir „heilbrigt skipulag.“ Helst er að skapa blöndu af mismunandi starfsemi, þá eins og verslanir, þjónustu, íbúðir og jafnvel léttan iðnað. Þannig má nýta augun sem til að skapa samstöðu íbúa og starfsmanna, samskipti þeirra í milli og um leið samfélag.

Nánar um verkefnið – www.gjafi.is/borgarbyggdungar

Lækið okkur á Facebook og fylgist með gangi verkefnisins: www.facebook.com/borgarbyggdungar

Um sigursteinnsig

Ég er nýútskrifaður, atvinnulaus arkitekt sem vill ekki hanga og gera ekki neitt. Þess vegna fór ég í að rannsaka og hanna hugmyndir að skipulagi fyrir Borgarnes, þar sem ég vill vekja athygli á hvað bærinn hefur mikla möguleika!
Þessi færsla var birt í Uncategorized og merkt sem , , , , , , , , , , , . Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd