Til hvers arkitektúr?

Image

Kaffi Björk í Lystigarðinum á Akureyri. Mynd fengin af vef arkitektastofunnar, http://www.kollgata.is

Á milli trjánna í grónum lystigarði kúrir lítið hús. Akandi umferð að húsinu er takmörkuð og stemmningin minnir óneitanlega á gömlu Grimms ævintýrin. Þetta litla hús er samt eitthvað svo stórt í umhverfi sínu en þrátt fyrir það nær það ekki að gnæfa yfir umhverfi sitt sem er elsti lystigarður Íslands. Hugmyndafræði hússins er ef til vill hugsuð eins og trjástofn. Dökkt yfirlit hússins tónar við trjábörkinn á meðan ljós viðurinn er allsráðandi innandyra. Gesturinn er alltaf áminntur að hann sé í garði eða jafnvel skógi, t.a.m. með sérstakri gluggasetningu sem á rómantískan hátt rammar inn trjágróðurinn fyrir utan. Glugginn verður fyrir vikið dálítið andlegur og hér er svipað fyrirbæri notað og með steinda glugga í dómkirkjum um heim allan. Þetta er Kaffi Björk í lystigarðinum á Akureyri en sú bygging fékk menningarverðlaun DV árið 2013 og skal engan undra. Húsið er vel heppnað og þarna hefur tekist að skapa andrúmsloft í kringum þá starfsemi sem kaffihúsarekstur er og eiga arkitektarnir skilið klapp á bakið fyrir vikið.

En hvað ef húsið hafi verið byggt öðruvísi? Hvað ef það hefði verið hannað með gróðasjónarmið að leiðarljósi þar sem hagnaður með dass af óðagotasparnaði og þá ríkjandi öfga í stöðlum hefur fengið að ráða ákvarðannatökum í hönnuninni? Það er hefði eflaust hefði verið hægt að finna ódýrari lausnir í byggingu Kaffi Bjarkar. Staðlaðar, fyrirfram framleiddar einingar, fjöldaframleiddir gluggar og svo má lengi telja. Það hefði líka verið hægt að spara umtalsvert fé í tíma á hönnun hússins og í raun sleppt því „andlega“ ef svo má að orði komast í hönnunarferlinu. Það hefði verið hægt að spara tíma með því að raða niður afgreiðsluborði, eldhúsi og klósettum á tíu mínutum og hóa svo í verkfræðing til að reikna burðargetuna. Það er jú mikilvægast að þakið tolli uppi og veggirnir renni ekki undan því. Það hefði líka verið hægt að fara alla leið og sleppa arkitektinu alveg og láta verkfræðinginn um verkið alfarið. Örugglega sparað heilmikið í hönnunarkostnað. En sem betur fer var það ekki gert. Hér voru hönnuðir trúir staðnum og því sem nærumhverfið og mannlífið þarfnaðist. Ekkert óðagot var í „fansý“ byggingarefnum og stíllin er mjög rómantískur, jafnvel sveitó sem hittir í mark. Einingahús klætt ódýrum keramikhellum hefði ekki hlotið menningarverðlaun í byggingarlist.

Image

Hjálmaklettur er er orðinn að kennileiti. Þar hittust hverfin í Borgarnesi og gengu í mikilli gleði út í Brákarey á Brákarhátíð 2012

Það er mikil ranghugsun að telja að byggingar og hlutir sem eru hannaðir til enda séu bruðl í anda 2007. Á Íslandi og sérstaklega í Borgarnesi hrista menn enn höfuðið yfir byggingum eins Hjálmakletti. Þó svo að ekki hafi allt í kringum húsið gengið eins og í sögu, þá hefur byggingin náð að festa sig í sessi sem þungamiðja í mannlífi bæjarins og er stórglæsileg að sjá. Enda vann það hús einmitt menningarverðlaun DV árið 2008. En góður arkitektúr hefur áhrif! Til dæmis um það má nefna söguna um verksmiður húsgagnaframleiðandans Herman Miller í Zeeland sem er smáborg í Michigan, Bandaríkjunum. Í upphafi tíunda áratugar síðustu aldar voru byggðar nýjar höfuðstöðvar og verksmiðjur fyrirtækisins og var William McDough arkitekt fenginn til verksins. McDough hafði að leiðarljósi sjálfbærni í hönnun hússins og fékk það sjónarmið að ráða allri ákvarðannatöku í hönnun þess. Á endanum var húsið dýrara í byggingu en það sem var mikilvægast var að það virkaði. Fólki leið betur í byggingunum sem skilaði sér í mikilli aukningu í afköstum starfsfólksins á öllum stigum. Þar að auki hrundi orkukostnaður þess þannig að á örfáum árum hafði nýbyggingin borgað sig upp. Þar að auki hurfu vandamál sem fylgdu hefðbundnum iðnaðarbyggingum eins og dögg fyrir sólu. Þessi velgengni hefði ekki orðið að veruleika ef ódýrustu og hefðbundnustu lausnirnar hefðu verið valdar, með byggingakostnað og að hafa húsið fljótlegt í bygginu að leiðarljósi.

Íslensk bygginalist er hálfgert olnbogabarn og því miður má segja að undanfarin ár hefur hún ekki verið uppá marga fiska. Sérstaklega í þeim mikla uppgangi sem var hér fyrir árið 2007. Nú, þegar ekki er liðinn áratugur frá því að uppgangurinn hófst erum við að taka eftir hversu illa var staðið að mörgum þessara húsa. Þetta eru hús í öllum stærðum og gerðum, allt frá einbýlishúsum uppí blokkir, opinberar og einkabyggingar. Margar þeirra eru þrælgallaðar og í alvarlegustu tilfellunum er fólk fárveikt á því að búa í húsunum. Það að húsin séu illa byggð kemur bersýnilega í ljós á fyrstu árunum en hinn vinkillinn, áhrif illa hannaðra bygginga kemur í ljós á mörgum árum. Það að spara í gerð bygginga sem munu standa áratugum saman er virkilega slæm hugmynd. Það er samfélagsleg skilda allra sem vinna í byggingageiranum að hugsa um umhverfið sem húsin standa í og þá sem eiga eftir að nota þau í framtíðinni. Jafnvel þótt þeir einstaklingar muni fæðast löngu eftir að hönnuðurinn er búinn að hrökkva uppaf. Kostnað við að búa til gæði má mæla í peningum, en ávinningurinn af gæðum er ómetanlegur.

Með þessum orðum má ekki rugla saman því að spreða byggingakostnaði í rándýr efni sem eru í tísku hverju sinni, heldur að leggja tíma og rökhugsun í að finna rétta efnið til að byggja úr og enn mikilvægara er að leggja tíma og hugsun í að skapa rýmið. En það er ekki til nein töfraformúla til að skapa góðann arkitektúr og það er alls ekki samasem merki á milli hás byggingakostnaðar og góðrar hönnunar í byggingum. Það er líka engin töfraformúla að ráða hvaða arkitekt sem er til verksins en það er engu að síður vandamál sú neikvæða umræða sem arkitektúr hefur og þetta á sérstaklega við á Íslandi. Það er því bæði neikvætt og rangt að halda fram að arkitektar séu óþarfir í húsbyggingum og það sem er slæmt sé þeim að kenna ef ekki gengur vel. Sannleikurinn er sá að flestar þær byggingar sem eru nú í umræðunni um klúður í byggingaiðnaði síðustu ára eru ekki hannaðar af arkitektum. Það er bláköld staðreynd að íslenskir arkitektar hafa mjög lítil völd í hönnun bygginga og þurfa oft að lúta í lægra haldi við þá sem byggja sem oftast eru fjárfestar og verktakar.

Það er líka ákveðið vandamál þegar nýjar byggingar koma fram að þeim er illa tekið af almenningi. Þær þykja ljótar og ekki til hæfis á þeim stað sem þær eru byggðar. Vitaskuld á það við um margar en í rauninni er það þannig að þannig hús verða gersemar í hugum fólks þegar fram líða stundir. Dæmi um þetta eru byggingar eins og Ráðhúsið í Reykjavík, Þjóðleikhúsið og Háteigskirkja. Sú síðastnefnda var hönnuð eftir okkar mann Halldór H. Jónsson en hún var gagnrýnd svo óvægið að Borgnesingurinn brotnaði saman. Í dag er hún ein vinsælasta kirkja landsins til brúðkaupa.

Image

Iðnaðarhúsnæði Herman Miller í Zeeland, Michigan (mynd http://www.treehugger.com)

Image

Í húsgagnaverksmiðju Herman Miller er reynt að nota eins mikla náttúrulega birtu og loftræstingu sem skilar sér í auknari afköstum starfsfólks (mynd http://www.treehugger.com)

Maður spyr sig þá hvort sama muni vera um tvær nýbyggingar í Borgarnesi, Hjálmaklett og stöðina, en einu hólin sem þessar byggingar fá eru utan bæjarins. Er tími til kominn að breyta viðhorfi sínu til nýrra strauma í hönnun og listum með jákvæðara og opnara móti? En á sama tíma er rétt að allir í byggingageiranum taki sig saman og fari að byggja á jákvæðan hátt, til framtíðar en ekki af gróðasjónarmiðum eins og hefur verið svo einkennandi í umræðunni. Er ekki rétt að breyta skilningi orðanna ,,2007 hús“ úr því að vera vel hönnuð hús með meiri metnaði en einmitt hús sem voru byggð af miklum hraða, án allrar rökuhugsnar í hönnun og með lítilli sem engri framtíðarsýn.

Góður arkitekt er ekki gagntekinn af því að byggja sem stærst og flottast. Góður arkitekt hugsar um rýmið á milli veggjanna, notkun rýmanna og gæði þeirra. Góður arkitekt hugsar um birtuskilyrði og vellíðan þeirra sem þar munu dvelja eða vinna. Það er neikvætt að þessir þættir skulu einmitt mæta afgangi í umræðunni um gæði bygginga á Íslandi og vera uppnefnd „2007 sjónarmið.“ Það er rétt að enda þennan pistil með orðum Steinþórs Kára Kárasonar arkitekts sem birtist í Húsum og híbýlum fyrir stuttu um framtíð arkitektúrs á Íslandi:

„Arkitektúr undanfarinna ára hefur almennt, á Íslandi og annars staðar, einkennst af innantómu yfirborði, þar sem einhverskonar ímyndarsköpun er í fyrsta sæti. Keppst er við að kaupa hluti og gæðamat byggist á umbúðunum frekar en innihaldinu og raunverulegum verðleikum. Þetta endurspeglast svo í þeirri umgjörð sem arkitektúr er búin, til að mynda ramma sem byggist á fullkomnu skilningsleysi á eðli arkitektúrs og hlutverki og raunverulegum arkitektúrer drekkt í verkferlum, skýrsluhaldi og forræðishyggju. Ef við berum gæfu til að snúa þessu við getur framtíð arkitektúrs á Íslandi orið björt, því hæfileikarnir eru vissulega til staðar.“

Um sigursteinnsig

Ég er nýútskrifaður, atvinnulaus arkitekt sem vill ekki hanga og gera ekki neitt. Þess vegna fór ég í að rannsaka og hanna hugmyndir að skipulagi fyrir Borgarnes, þar sem ég vill vekja athygli á hvað bærinn hefur mikla möguleika!
Þessi færsla var birt í Uncategorized og merkt sem , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , . Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd