Götulist i Borgarnesi? Annar hluti

Í síðustu færslu var minnst stuttlega á kosningaloforð sem var gefið í Barcelona árið 1981. Kosningaloforðið breyttist í slagorð og hljómaði á ensku “Bring Museums to the streets” sem í lauslegri íslenskri þýðingu „Færið söfnin á göturnar“. Í suttu máli sagt þá vann það kosningaafl og efndi kosningaloforð sitt. Að vísu var grunnt á litríka menningu Katalóníu í arkitektúr og listum á götum úti en á þessum tíma var stutt síðan að harðstjórn Francos leið undir lok, en sá maður braut allt sem tengdist menningu á bak aftur. „Færið söfnin á göturnar“ var þá óbeint endurreisnarstarf. Í dag, um þremur áratugum síðar er menning órjúfanlegur partur af borgarumhverfi Börsunga. Höggmyndir í almenningsrýmum, götuleikarar, tónlist og ögrandi arkitektur eru á hverju horni. En einnig fer mikið fyrir götulist í borginni sem hefur þróast sem sjálfstætt listform og er mjög framarlega á heimsvísu.

Image

Umhverfislistaverk eftir Beverly Pepper í Parc du Nord, Barcelona

En þetta snerist ekki eingögnu um að fegra umhverfið. Það lá miklu meira að baki en að borgaryfirvöld eyddu fjámunum í listaverk, eitthvað sem mjög margir líta á sem bruðl og tækifæri til að skera niður á harðindatímum. Það var danski arkitektinn og skipulagsfræðingurinn Jan Gehl sem kom til Barcelona sem ráðgjafi um hvernig ætti að „laga“ borgina til og var þetta eitt af hans ráðum. Það er nefnilega málið að í hinu manngerða rými skortir mannlega þáttinn, eins kaldhæðnislegt og það hljómar. Það eru fjölmörg borgarrými í Barcelona sem voru ekki að virka, fólk veigraði sér við að fara þar í gegn hvað þá að dvelja þar. Það áhugaleysi kom niður á efnahag fyrirtækja og fasteigna við þau tilteknu svæði. Til dæmis um þetta má taka heilt hverfi í borginni. El Raval hverfið var alræmt fyrir glæpi og vændi og voru ferðamenn beinlínis  varaðir við að heimsækja það. En, sem hluti af átaki borgarinnar var listamönnum leyft að skreyta veggi á skipulagðan hátt myndaðist vísir af jákvæðara mannlífi. Fólk fór að skoða verkin, m.ö.o. að staldra við og smátt og smátt varð El Raval iðandi af lífi eins og það er í dag.

Um allan heim hafa borgaryfirvöld farið eins að í að bæta borgarbrag sinn með listum. Melbourne, Madrid, New York, Berlín og svo má lengi telja. Það, að fólk fari að sýna svæðum innan þéttbýlis áhuga og fara að leggja leið sína þangað bendir til þess að eitthvað er gert rétt. Íslenskt dæmi um þetta er Hjartagarðurinn í Reykjavík eins og ritað var um í síðustu færslu en Hjartagarðurinn er einmitt svæði sem viðsnúningurinn er áþreifanlegur á mettíma. Þar lék götulistin stærsta hlutverkið.

Listir og menning er eitthvað sem maðurinn á hrikalega erfitt með að melta. Þetta er eitthvað sem á sér rætur djúpt í heilabúinu og sálarlífi hvers einstaklings og vísindin hafa ekki enn náð að afhjúpa hvernig þetta virkar. Það er til að mynda ennþá afskaplega flókin spurning að spyrja „Hvað er list“? Þessi spurning orðin svo gömul að hún er klisja. Sumir hafa sagt að listin er eitthvað sem vekur með manni tilfinningar, hvort sem það er gleði eða sorg, áhuga eða hneykslun. Það síðastnefnda er eitthvað sem virðist kvikna hjá flestum en ef sú tilfinning er ekki meðhöndluð rétt breytist hún í fordóma.

Image

Auglýsing eða list? Mynd fengin af igolf.is

Í eðli sínu er götulistin mjög áberandi listform þar sem hún er á opinberum stöðum þar sem fólk á gjarnan leið um. Það er kannski þess vegna sem það listform hefur verið ýtt niður í svaðið og meira að segja fengið á móti sér ríkisstyrk til að uppræta. Það er mjög athyglisvert að á móti hafa auglýsingaskilti mun meira umburðarlyndi, þó svo þessir tveir þættir eru í grunninn sama fyrirbærið.

Í Borgarnesi eru fjölmörg svæði sem þurfa uppreisnar æru. Gæti verið að sama aðferðarfræði og út í heimi myndi virka í bænum? Það er allavega vitað að brunagaflar hafa neikvæð áhrif, þá skortir mannlega þáttinn. Listaverk á þannig veggi myndu lyfta umhverfinu svo um munar og myndu bæta svæði, eins og til dæmis Brákarey til muna. Ef það orðspor að þar sé hægt að ganga um og skoða útilistaverk myndi gera það að vinsælum viðkomustað ferðamanna og heimamanna. Eigendur lóða og fasteigna á svæðinu myndu þá verða undir þrýstingi að taka til í kringum sig, bæta byggingar sínar og það myndi auka á gæði rýmanna. Enn fremur væri möguleiki á að fasteignirnar myndu fá möguleika á fjölbreyttari starfsemi. Keðjuverkandi áhrifin myndu verða til þess að eyjan myndi öðlast það líf sem hún á skilið.

Það skal tekið fram að allt er gott í hófi. Of mikið af list getur haft öfug áhrif. Nauðsynlegt væri að verkin væru fagmannlega unnin og af kostgæfni, annars er hættan að orðsporið væri skemmdaverk eða kitsch.

Hér að lokum koma nokkrar tölvugerðar myndir sem sýna hvernig rými sem þekkjast í Borgarnesi geta umbreyst með hjálp götulistar.

Image

Image

Image

Image

www.gjafi.is/borgarbyggdungar

www.facebook.com/borgarbyggdungar

Um sigursteinnsig

Ég er nýútskrifaður, atvinnulaus arkitekt sem vill ekki hanga og gera ekki neitt. Þess vegna fór ég í að rannsaka og hanna hugmyndir að skipulagi fyrir Borgarnes, þar sem ég vill vekja athygli á hvað bærinn hefur mikla möguleika!
Þessi færsla var birt í Uncategorized og merkt sem , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , . Bókamerkja beinan tengil.

3 svar við Götulist i Borgarnesi? Annar hluti

  1. sigursteinnsig sagði:

    Það er rétt að koma á framfæri að myndirnar sem er skeytt inní Borgarnesmyndirnar eru eftir hina ýmsu listamenn og eru fengnar af brookynstreetart.com

  2. Logi Bjarnason sagði:

    Vá vá góð grein að vanda. Þetta er eitt af því sem vantar í B.s. Þessum hugsunnar hætti mætti planta hjá bænum. Það ert engin að fara að stoppa í B.i. til að skoða BM vallá eða Loftorku. Bara það sem glæðir hugann er áhugavert og sérstakt. Það má nefna Bjössaróló, landnámssetur og einhverjar sýningar ef einhverjar eru í bænum. Ég sé að þú settir mynd af Kókdósinni sem ég gerði fyrir mörgum árum. það er ótrúlegt hvað þessi dós er orðin fræg um allan heim, hún hefur verið innblátur ljósmyndara, rithöfunda og bíómynda. Ég veit ekki hvort ég myndi samt kalla þetta list vegna þess að þetta er náttúrlegra bara lógó. En það er áhugavert og frumlegt að þetta sé á þessum stað. En persónulega hefði ég gert eitthvað sem er ekki til nema í huganum. Þar er kanski smá defenition á list að gera eitthvað sem er ekki til í þessum heimi og maður vill að sé til. Ég sá þetta í Ástralíu og mér finnst þetta frábært: http://www.urbansmartprojects.com/
    Takk fyrir að skriða þetta blog

  3. sigursteinnsig sagði:

    Takk fyrir þetta, Logi! En það er athyglisvert hvað hlutir eins og einmitt kókdósin geta haft áhrif á umhverfi sitt og efnahaginn. Takk svo fyrir linkinn, þetta er ahugavert fyrir svona skipulagsnörda eins og mig!

Færðu inn athugasemd