Lífið er þar sem fólkið er

Image

Kaupfélagið nýopnað fyrir viðskipti

Nú eru hátíðarnar rétt liðnar og landinn er óðum að jafna sig eftir rjómalagaðar og saltaðar krásir og margir ættu að vera komnir á síðustu blaðsíðuna í bókinni sem var fengin í jólagjöf. En álagið á budduna tekur lengri tíma að jafna sig. Í jólamánuðinum rýkur neysla uppúr öllu valdi og fólk er í kapphlaupi við tímann að kaupa gjafir, jólakort og jólamat. Áhrifin sem þetta fyrirbæri hefur á borgarfræðina er sú að þau svæði sem eru með verslunum verða uppfull af fólki í kauphugleiðingum. Það er mjög ánægjulegt að sjá hversu miklu lífi ákveðin svæði öðlast á þessum tíma en í bland við gleðina gefst upplagt tækifæri til að sjá hvernig okkar byggða umhverfi bregst við þessum sviptingum og það er athugavert að athuga hvaða svæði blómstra og hvaða svæði klúðrast.

Í þessu samhengi var athyglisvert að sjá auglýsingarnar fyrir hátíðarnar í Borgarnesi og ákveðið mynstur sást greinilega. „Komið og upplifið stemmninguna eins og hún var í gamla kaupfélaginu“ var setning sem fólk var lokkað með og ekki af ástæðu lausu. Stemmningin í gamla Kaupfélaginu, verslunarhúsinu við Egilsgötu (það sama og er nú undirlagt af myglusvepp eins og orðið á götunni heldur fram) var eins í Dickens jólaævintýri. Allir hittust, það var stemmning, fólk var í góðu skapi og fór jafnvel í kaupfélagið bara til að fá „stemmninguna í æð“. Eitthvað við þetta tiltekna verslunarhúsnæði gekk upp því stemmningin var ekki síðri á öðrum tímum en í kringum hátíðarnar. Þarna var miðstöð mannlífsins í bænum og fólk átti í samskiptum á öllum stigum. Allt frá því að mætast á göngunum til þess að sitjast og ræða hörmungar mannlífsins yfir Kaupfélagskaffi tímunum saman. Af hverju virkaði þetta?

Verslunar og skrifstofuhöll Kaupfélags Borgfirðinga var formlega opnað með pomp og prakt 1. desember árið 1960. Það var að sjálfsögðu hannað af Teiknistofu sambandins og má sjá einkenni verslunarhúsa sem voru byggð um sama leiti, svo sem eins og Kjörgarð, Glæsibæ og Grímsbæ í Reykjavík. Hvort sem arkitektarnir voru meðvitaðir um það eða ekki þá hönnuðu þeir lítið bæjarskipulag innan veggja verslunarhússins. Það voru götur sem leiddu visðkiptavini og starfsfólk á milli „hverfa“ í formi verslunardeilda. Í kjarnanum var torgið þar sem sambandskaffið var lagað og þaðan sást yfir stóran hluta verslunarinnar. Án allrar þáþrár þá er það akkúrat svona sem á að hanna byggingar. Það er að hugsa alltaf um borgina, eins og vitur maður sagði.

Image

„Aðaltorg“ Kaupfélagsins, rétt fyrir opnunina 1. des 1960

Þessi formúla varð til þess að fólk sóttist í að vera þarna og það þurfti í raun lítið til að „skapa“ stemmningu. Áhrifin smitðu meira að segja út frá sér og Egilsgatan var iðandi af lífi. Í rauninni var gatan ekkert ósvipuð Laugaveginum í dag þótt ótrúlegt megi virðast. Síðan hefur starfsemin flutt og var það til þess að minni verslanir á svæðinu lögðu upp laupana eða fluttu sjálfar. En stemmningin og mannlífið flutti ekki. Slíkt er ekki hægt að pakka ofan í kassa og taka upp annarsstaðar. Slíkt þarf að skapa og er það jákvæða mannlíf sem er svo að segja sjálfsprottið mjög jákvætt á hið byggða umhverfi. En mannlífið er eins og fræ, það spírar ekki nema við kjöraðstæður. Í Hyrnutorgi, þar sem Kaupfélagið flutti fyrst eftir Egilsgötuna hefur fræ mannlífsins fallið í grýtta urð.

130112-1105-hyrnutorg_audsaeti

„Aðaltorg“ í Hyrnutorgi. Borð fyrir almenning vanalega ónotuð

Fyrir síðustu jól tóku þjónustuaðilarnir þar sig saman og héldu jólakvöld. Bryddað var uppá alls kyns tilboðum og hljómsveit steig á stokk og spilaði nokkur lög. Viðburðurinn var vel sóttur og mikið af gestum komu við, með öðrum orðum, uppákoman var vel heppnuð. En daginn eftir var eins og ekkert hafði gerst. Kaffiborðin voru tóm, gangarnir auðir fyrir utan viðskiptavini sem fóru inn og út án þess að stoppa. Það kom þá í ljós að fólk hafi heimsótt húsið til að nýta sér tilboðin en ekki til að upplifa jólastemmningu. Á kaldhæðnislegan hátt hafði viðburðurinn verið auglýstur að fólk ætti að koma og upplifa stemmninguna sem var í gamla Kaupfélaginu á Þorlák og þá voru ekki boðin nein sérstök tilboð. Hyrnutorg er bygging sem er ekki hönnuð með það í huga að þar geti mannlíf blómstrað og þess vegna þarf sífellt að vera með viðburði eins og haldin var fyrir jól til þess að slíkt geti verið. Það vantar sálina í hönnunina og það kemur verulega niður á gæðum hússins. Það að húsið sé svo ranglega nefnt Hyrnutorg sýnir þetta á svo kaldhæðinn hátt, húsið hefði alveg eins getað heitið Hyrnuspítali.

Nokkru fyrr hafði Landnámssetrið haldið vetrarhátið það sem fyrirtækjum var boðið að halda kynningu á sínum vörum og þjónustu. Sá viðburður var líka vel sóttur og margt um að vera og hugmyndafræðin á bakvið þann viðburð var svipaður og í Hyrnutorginu. En það var nokkuð annað sem gerðist. Fyrir tilviljun var Leikdeild Skallagríms með æfingu í Félagsbæ þarna skammt frá. Þetta tvennt gerði það að verkum að skyndilega var eins og allt iðaði af lífi. Annar viðburðurinn var meira að segja lokaður. Þetta varð til þess að nokkrum dögum síðar var haldið aðventurölt í gamla bænum sem sá sem þetta ritar sá um framkvæmdina á. Enn og aftur var formúlan sú sama, þjónustuaðilar á svæðinu buðu uppá tilboð og uppákomur. Til viðbótar við það var reynt að lífga uppá götuna með því að fá kór til að ferðast um og syngja jólalög og láta útskriftarhóp menntaskólans selja kakó og kökur. Viðburðurinn var einstaklega vel heppnaður og var skrifað um hann í fjölmiðlum með áskorun um að slíkt verði haldið aftur að ári liðnu.

En hið sama gerðist aftur og í Hyrnutorgi. Næsta dag var eins og ekkert hafði gerst. Fyrirtækin voru komin í sama gír og daginn fyrir viðburðinn að annast viðskiptavinina í jólaösinni. En af hverju? Neðri bærinn er svo að segja skemmdur og því nær stemmningin ekki að viðhaldast. Hröð uppbygging uppgangsáranna skilur eftir sig auð húsnæði sem eru enn tóm. Ónýtt, stór svæði eru mörg, margar gamlar byggingar í niðurníslu og ofur áhersla á einkabílinn og bílastæði. Allt þetta hefur neikvæð áhrif á mannlífið og þessa frægu stemmningu sem allir vilja ná í góðu bæja og borgarskipulagi.

Image

Afgreiðslufólk í gamla KB. Mynd fengin af vef Safnahúss Borgarfjarðar

En hvað er til ráða í dag? Hyrnutorg og Neðri bærinn þurfa að byggjast upp með sínum forsendum. Þar sem Hyrnutorg stendur er hinn nýju miðbær. Hann þarf nauðsynlega á sál að halda ef þarna á að vera uppbygging en ekki stöðnun eða þaðan af verra hnignun. Neðri bærinn er gamli bærinn, menningarlegur miðbær Borgarness. Þar þarf að stoppa upp í öll þau göt sem þar eru og viðhalda menningarlegri og sérhæfðri þjónstu og framboði. Gangi þetta upp þarf kannski ekki að hafa svona mikið fyrir því að skapa stemmninguna eins og hún var í Kaupfélaginu á Þorlák í denn.

www.gjafi.is/borgarbyggdungar

www.facebook.com/borgarbyggdungar

Um sigursteinnsig

Ég er nýútskrifaður, atvinnulaus arkitekt sem vill ekki hanga og gera ekki neitt. Þess vegna fór ég í að rannsaka og hanna hugmyndir að skipulagi fyrir Borgarnes, þar sem ég vill vekja athygli á hvað bærinn hefur mikla möguleika!
Þessi færsla var birt í Uncategorized og merkt sem , , , , , , , , , , , , , , , , , , , . Bókamerkja beinan tengil.

6 svar við Lífið er þar sem fólkið er

  1. Unnur Halldórsdóttir sagði:

    Þetta er vekjandi pistill og minnir okkur á að hvað getur gerst ef við förum fram úr okkur. Það er mjög gaman að upplifa stemminguna við gömlu Höfnina í Reykjavík, þar sem verbúðirnar hafa fengið nýtt líf, þær átti nú að rífa á uppgangstímunum, en sem betur fer sluppu þær og hafa fengið ný og fjöbreytt hlutverk

    • sigursteinnsig sagði:

      …og vonandi fá þær að standa sem allra lengst! Kannski óskilt þessu þá hafa gömul iðnaðarhús gengið mjög vel eftir að hafa fengið nýja starfsemi. Annað dæmi þarna skammt frá er Hafnarhúsið sem var tollhús en er í dag Listasafn Reykjavíkur.

  2. Logi Bjarnason sagði:

    Sæll Sigursteinn, Þetta er skemmtileg lesning einsog alltaf hjá þér. Það er alltaf erfitt að fanga stemmingu eða færa hana til. Enda sér maður samtímann öðruvísi en minningar. En að mínu mati er til lausn á þessu, og hún er að skapa ekki stemmingu fyrir fólkið heldur búa til aðstæður fyrir fólkið til þess að skapa stemminguna sjálft. Búa þannig til sérstöðu sem er ekki annarstaðar og fólk sækir í. Uppbyggingin þarf að gerast innanfrá.

    • sigursteinnsig sagði:

      Takk fyrir það Logi! Já, ég er alveg sammála með að maður getur ekki skapað stemmninguna til lengri tíma. Eins og einn virtur landslagsarkitekt í UK sem ég fór á fyrirlestur hjá sagði þá er ekki hægt að mæla hvort almenn rými séu vel heppnuð eða ekki. En aftur á móti þurfa aðstæðurnar að vera góðar til þess að mannlífið geti blómstrað og aftur þá enginn veit raunverulega hver hinn fullkomna formúla af því er! En ef aðstæðurnar bjóða uppá það þá getur eitthvað frábært gerst. Mér finnst t.d. það sem er að gerast með Hjartagarðinn í Reykjavík frábært, og athyglisvert er að hann varð til að mestu leiti af götulist sem hingað til hefur þótt vera neikvæð viðbót í borgarlífið….

  3. Theódóra sagði:

    Sæll Sigursteinn og takk fyrir gott blogg.
    Ég hef verið að heyra af fólki sem planar spennandi hluti í Englendingavíkinni. Ef allt gengur eftir getur átt von á góðri stemningu í miðbænum næstu jól 🙂

Færðu inn athugasemd