Borgarnes og byggingarlistin

Borgarnes er ef til vill ekki það fyrsta sem poppar upp í hugann þegar minnst er á byggingalist og jafnvel er svo hjá íbúunum sjálfum. Þegar hlutir verða hversdagslegir er hætt við að þeir blandist svo vel í umhverfið að þeir verða ósýnilegir. Þetta er eins og orðatiltækið að sjá ekki skóginn fyrir trjám. En raunin er sú að í Borgarnesi eru mörg dæmi úr húsagerðarsögu Íslands, og þá aðallega í þeirri grein sem snýr að nútíma arkitektúr. Í fræiðlegum og jafnvel sögulegum skilningi byggingarlistar á Íslandi leika fyrirtækin Loftorka og Límtré Vírnet stór hlutverk þar sem þau bæði voru vissir frumkvöðlar á sínu sviði. Hvað varðar einstaka dæmi eru nokkur í Borgarnesi og enn fleiri ef litið er á Borgarbyggð í heild. Að gefnu tilefni má mæla með því að íbúar bæjarins eða gestir fari í göngutúr um plássið og líti þessi hús eigin augum. Hér koma dæmi um nokkrar þessara bygginga:

Image

Borgarneskirkja

Halldór H. Jónsson arkitekt hannaði Borgarneskirkju en hann er borinn og alinn Borgnesingur! Hann spilar nokkuð mikilvæga rullu í byggingarsögu Frónarinnar en hann hannaði Háteigskirkju í Reykjavík, auk Bændahallarinnar í Vesturbænum. Það síðarnefnda er eitt fallegasta dæmi um nútíma arkitektúr á Íslandi. Það er greinilegt að þegar Borgarneskirkja var hönnuð var verið að búa bænum kennileiti og tákn. Kirkjan trónir á einum hæsta punkti neðri bæjarins og hefur svo sannarlega staðið undir því nafni sem kennileiti. Þó svo að hún standi svo áberandi er skýrskotun í umhverfið áberandi: efniskennd þaksins tónar við áferð klettanna og gluggar hússins ramma inn vítt útsýni frá staðsetningunni. Kirkjan er þó með mjög klassísku sniði og ekki var verið að finna upp hjólið þegar hún var hönnuð, en enga að síður fögur bygging í anda Halldórs.

Gamli Sparisjóðurinn

Þetta virðulega hús stendur á klettahæð á enda Egilssgötu. Húsið er hannað af einum nafntogaðasta arkitekt Íslands, Guðjóni Samúelssyni sem var húsagerðameistari ríkisins hér í denn. Hann er sá sami og hannaði m.a. hús Háskóla Íslands, Þjóleikhúsið, Hallgrímskirkju og fleiri. Húsið er byggt í klassískum stíl og er einkennandi fyrir verk Guðjóns á þeim tíma sem hann snéri aftur til Íslands úr námi. Húsið er nú íbúðarhús en það er mjög fallegt að sjá og einnig að það er byggt uppá klettinn sem í dag myndi sennilega vera brotinn niður fyrir nýbyggingu.

Image

Gamla Mjólkursamlagið

er einnig hannað af Guðjóni Sam. Þarna er hann farinn að vera meira undir áhrifum módernisma og má sjá skýrskotun í stuðla og náttúru Íslands eins og hann var þekktur fyrir. Það er ekki vitlaust að skoða húsið með Þjóðleikhúsið, Akureyrarkirkju og Háskólann í huganum og sjá sameiginleg einkenni. Samlagið er í dag orðið að menningarhúsi, enda nýtast salir þess einkar vel til sýningarhalds. Málið er að gamlar verksmiðjur og vöruhús falla vel að þannig starfsemi… Gaman væri að sjá meira svoleiðis í þessu húsi!

Image

Brúin yfir Brákarsund

Brúin var reist árið 1929 og er stórkostlegt dæmi um bygginga- verkfræði- og framtaksemi Íslendinga. Brúin tekur mið af Hvítárvallarbrúnni sem birtist í fagtímaritum á sínum tíma um allan heim. En brúin yfir Brákarsund hefur elst vel og er algjört augnkonfekt þar sem hún tengir Digranes við Eyjuna. Hún er líka einkennandi séð frá Hafnarfjalli.

Image

Landnámssetrið

Hér eru á ferðinni elstu hús plássins og hafa þau farið í gegnum óteljandi, mismunandi hlutverk í þau fjölmörgu ár sem þau hafa staðið uppi. Nú hefur þeim verið breytt í safn og leikhús eins og allir vita en slíkt krefst töluverðra breytinga á skipulagi bygginganna. Það er mjög vandasamt verk að tengja saman bæði söguleg og upprunaleg hús eins og þessi tvö. Sigríður Sigþórsdóttir arkitekt (og heimasæta úr þessari sveit) tókst vel upp það verk. Tengibyggingin er hönnuð með það í huga að hún sé hlutlaus gagnvart gömlu húsunum og í raun er hægt að rífa hana án þess að hún hafi veruleg áhrif á þau gömlu. En það sem er aðdáunarvert er rýmið sem myndast á milli húsanna og klettsins að baki þeirra, hins nafntogaða Búðarkletts. Byggingin er látlaus að utan en ævintýraheimur þegar inn er komið. Þess má geta að Sigga Sigþórs hefur staðið sig vel í arkitektaheiminum á Íslandi og eru hús Bláa lónsins hennar hugarsmíð.

Ráðhús Borgarbyggðar (Mið-Sparisjóðurinn)

Sigvaldi Thordarson hannaði þetta frábæra dæmi um módernisma sem hefur aldeilis staðist tímans tönn. Hér er á ferðinni upphefð á forminu og efninu og vert er að veita athygli lóðréttum og láréttum línum í hönnuninni, auk sambands stálsins við steinsteypuna. Það var Sparisjóðurinn sem byggði þetta hús og var starfsemin þar í fjölmörg ár áður en stofnunin flutti á Digranesgötu þar sem hún rann inní Arionbanka. En ráðhúsi Borgarbyggðar er mikill sómi af að vera staðsett í þessari byggingu.

Image

Hjálmaklettur

Á gamla malarvellinum var fundin staður fyrir Menntaskóla Borgarfjarðar, á annáluðu rokrassgati og þáverandi tjaldsvæði bæjarins. Það var því alveg ljóst að allt við þessa byggingu yrð umdeild og svo er það enn. Arkitektastofan Kurtogpi sem samandstendur af Ásmundi Hrafni Sturlusyni og Steinþóri Kára Kárasyni fengu það í sinn hlut að hanna bygginguna og var þeim bókstaflega gefin laus taumurinn. Á tímum uppgangs var sem allir sjóðir væru botnlausir hvað varðar efniskennd og innanhússhönnunar. En útkoman er hreint út stórkostleg. Húsið er sannkallað meistarastykki sem Borgnesingar ættu að vera stoltir af. Húsið er hannað með það að leiðarljósi að ramma inn sjónarhorn í allar áttir og falla inní umhverfið. Það sem er sérstaklega vel heppnað er notkun rýma útávið en í kringum húsið má alltaf finna skjólsælan blett sem nýtist starfsemi hússins. Reyndar varð þessi starfsemi enn víðari eftir hrunið þar sem sveitafélagið nýtir húsið undir allskyns menningar og viðburðastarfsemi. Hvað sem öllum lánum og neikvæðnisröddum lýður er húsið virkilega vel heppnað, menningarlega og samfélagslega séð.

Arionbanki

Teiknistofa Ingimundar Sveinssonar hannaði húsið á glænýrri uppfyllingu við brúarsporð Borgarfjarðarbrúnnar. Eins og var tamt á uppgangsárunum var engu til sparað við nýjar höfuðstöðvar Sparisjóðsins og flaggaði arkitekt þessa húss öllum trixum í bókinni hvað varðar íbúrð. Glerveggir í allar áttir, vegleg funaraðstaða á efstu hæð – í turni, tjörn og brú sem útisvæði einkenna þessa byggingu. Húsið er dæmigert í anda fjármálastofnanna sem risu eins og gorkúlur um allt land á þessum tíma. En svo fór að Sparisjóðurinn rann á rassinum inní Arionbanka. En það er síður en svo endirinn fyrir fjármálastarfsemi í húsinu. Það má fullyrða að afgreiðslusalur Arionbanka í Borgarnesi er sá glæsilegasti hjá fyrirtækinu og því má þakka notkun hönnuðarins á klettabletinu fyrir utan húsið. Landslagshönnunin fær prik fyrir sína innkomu, en þó er göngubrúin eitthvað svo gagnslaus eins og hún liggur núna, en gert var ráð fyrir göngustíg frá bankanum að húsnæði Bónuss, Hagkaups og Geirabakarís. Húsið hefur veikleika gagnvart því hífaandi roki sem þarna vill verða (segja björgunarsveitamenn) en það er samt sem áður þokki yfir byggingunni frá öllum vinklum. Takið eftir hvernig „fundarsalsturninn“ gægist yfir holtið þegar staðið er í hallanum við Hjálmaklett… 

Um sigursteinnsig

Ég er nýútskrifaður, atvinnulaus arkitekt sem vill ekki hanga og gera ekki neitt. Þess vegna fór ég í að rannsaka og hanna hugmyndir að skipulagi fyrir Borgarnes, þar sem ég vill vekja athygli á hvað bærinn hefur mikla möguleika!
Þessi færsla var birt undir Uncategorized. Bókamerkja beinan tengil.

Eitt svar við Borgarnes og byggingarlistin

  1. sigursteinnsig sagði:

    Þegar ég les þetta yfir svona birt sé ég nokkrar innsláttar og stafsetningarvillur. Svoleiðis fer virkilega í taugarnar á mér þannig ég biðst afsökunar á því hér með!!!

Færðu inn athugasemd